Þjónusta

Hjá Júní snýst allt um þig og þína stafrænu veröld. Þess vegna köllum við þjónustuna okkar Sporbrautina. Sporbrautin er þrennt í einu: sérsniðin ráðgjöf á heimsmælikvarða, tímalaus fegurð í hönnun og stafræn kraftaverk í forritun.

Við búum yfir verkfærunum og þekkingunni sem þarf til að greina þínar einstöku aðstæður og áskoranir til hlítar og sérhanna lausnir. Þetta þurfa nefnilega ekki að vera nein geimvísindi.

Skoðaðu þig um og mátaðu þig við tilhugsunina um að vera miðpunktur alheimsins.

Ráðgjöf á heimsmælikvarða

Með því að byrja á góðri stefnumótun og forgangsröðun verður verkefnið þitt margfalt viðráðanlegra og straumlínulagaðra – og við getum hjálpað þér með það. Ráðgjafateymið okkar er þaulreynt, þrautþjálfað og með ráð undir rifi hverju. Við erum ekki að ýkja þegar við segjumst bjóða upp á ráðgjöf á heimsmælikvarða. 

Við erum sérfræðingar í stefnumótun, forgangsröðun, ákvarðanatöku, breytinga- og verkefnastýringu, ferlagreiningum, vinnustofum, UI/UX þróun, notendaprófunum, sviðsmyndagreiningum, Scrum, Kanban, Lean og Agile – svo fátt eitt sé nefnt.

Kynntu þér ráðgjafarferlið okkar betur:

Sérhannaðir alheimar

Hönnunarteymið okkar hefur verið að hanna heilu veraldirnar frá því þau muna eftir sér. Við byrjum alltaf á því að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn, en beislum það svo með áreiðanlegri og gagnrýninni aðferðafræði. Við ítrum og prófum og potum og skoðum allan pakkann – sem tryggir fullkominn samhljóm milli aðgengileika og fegurðar.

Hvernig líta hlutirnir út hjá þér? Er alveg nógu bjart? Við getum skrúfað upp í stjörnubirtunni. Þarf kannski að koma aðeins meiri röð og reglu á hlutina? Það er ekkert mál að festa reiður á óreiðunni. Jörðin þarf ekki að snúast í kringum sólina. Það sem fer upp þarf ekki að koma niður. Ekki nema að þú viljir það.

Forrituð kraftaverk

Góður kóði er gulls ígildi. Okkur finnst svo gaman að forrita því við getum bókstaflega búið til heilu stafrænu heimana með rétta kóðanum – sem þýðir að við getum sérsniðið veröldina að þínum þörfum. 

Við vitum hvers virði það er að vera með réttu stafrænu lausnirnar – og við vitum hvers virði það er að allt virki og gangi smurt fyrir sig. Þess vegna leggjum við áherslu á að lausnirnar okkar séu áreiðanlegar og verðmætar fyrir þig og þína skjólstæðinga. Forritunarteymi Júní kappkostar við að skapa hugbúnaðarlausnir í takt við nýjustu tækni og vísindi, og við lærum eitthvað nýtt á hverjum degi.

Við höfum unnið með Júní frá snemma árs 2018 þegar við hófum okkar stafrænu vegferð. Þau hafa komið að öllum stærri stafrænu verkefnum okkar, umbylt og endurgert vefsvæði okkar og þjónustugátt. Á þessum árum hefur þjónustugáttin vaxið í að verða stærsta þjónustuskrifstofa VÍS þar sem við höfum reglulega kynnt nýjungar og stóraukið þjónustu okkar. Um 400% aukning hefur verið á mánaðarlegum innskráningum á þessum tíma. Samstarfið hefur verið einstaklega gott og aldrei borið skugga á. Hjá fyrirtækinu starfar mjög hæft starfsfólk og höfum við notið þjónustu mjög öflugra forritara og hönnuða. Þau vinna hratt, eru mjög agile í sinni nálgun og hönnunin er virkilega falleg og aðgengileg. Ég gef þeim mín bestu meðmæli enda hafa þau átt stóran part í þeim árangri sem við höfum náð á síðustu árum.

Guðný Helga Herbertsdóttir

Forstjóri VÍS

Hvaða snilld ert þú með í huga?

Í gjöfulu samstarfi verða til magnaðir hlutir og við viljum vinna með þér